Tónlistarveitan Spotify kom með krafti inn í kauphöllina í New York í gær en við lokun markaða var félagið verðlagt á 26,5 milljarða dala. Í frétt The Wall Street Journal um málið segir að skráning Spotify geti verið ógn við fjármálafyrirtæki á Wall Street en tónlistarveitan skráði sig svo til án hefðbundinnar aðstoðar fjárfestingabanka.

Miðað við dagslokagengi bréfa Spotify í gær er félagið áttunda stærsta tæknifyrirtækið til þess að skrá sig á markað og kemur rétt á eftir Google þegar það skráði sig ári 2004.

Skráning Spotify var svokölluð bein skráning en þá eru fyrirliggjandi hlutir í fyrirtækinu seldir á markaði í stað þess að nýir séu gefnir út. Auk þess kaus fyrirtækið ekki að fá fjárfestingabanka til að ábyrgjast sölu bréfanna.

Fjárfestingabankar hafa iðulega tugi milljóna dala í tekjur af skráningu fyrirtækja eða sem nemur milljörðum króna. Í ljósi velgengni Spotify gætu fleiri fyrirtæki sem hyggjast skrá sig á markað kosið að fara sömu leið og það gæti haft í för með sér töluverðar tekjuskerðingar fyrir bankana.