„Við ætluðum að leggja áherslu á að vera með sérhæft fyrirtæki sem gæti verið í eigu margra aðila og veitt öllum markaðnum þjónustu en það verður ekki úr þessu. Tíu ára rekstrarsögu fyrirtækisins er lokið.“ Þetta segir Guðrún Ó. Blöndal, framkvæmdastjóri Verdisar.

Verdis er þjónustufyrirtæki fyrir innlendar og erlendar fjármálastofnanir auk annarra aðila í fjármálastarfsemi. Verdis er dótturfélag Arion banka en bankinn hefur nú ákveðið að sameina starfsemina bankanum. Ákvörðunin er þó háð samþykki eftirlitsstofnana og er stefnt að því að sameiningarferlinu ljúki á seinni hluta ársins.

„Þetta þýðir að starfsemi Verdisar fer inn í Arion banka. Þannig að Arion banki mun halda áfram að veita vörslu- og undirvörsluþjónustu sem Verdis hefur verið með en öll umsýsla með verðbréfasjóði fyrir þriðja aðila og verðbréfabakvinnsluþjónusta mun leggjast af,“ segir Guðrún. Verðbréfaþjónustan er þess eðlis að Arion banki getur ekki sinnt henni þar sem Verdis hefur meðal annars veitt ýmsum keppinautum bankans þjónustu.

Áður stóð til að Landsbankinn keypti hlut í Verdisi en leyfi fyrir því hefur nú verið í ferli hjá Samkeppnisferlinu í rúmt ár. Landsbankinn gafst upp á biðinni sem leiddi til þess að sameina þarf starfsemina Arion.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.