Ekki er ljóst hvort slitastjórn Kaupþings mun höfða einkamál gegn sakborningum í Al Thani-málinu, en talsmaður slitastjórnarinnar vildi ekki tjá sig um þann möguleika þegar Viðskiptablaðið hafði samband við hann.

Í dómi Hæstaréttar í Al Thani-málinu kemur fram að sakborningarnir í málinu hafi valdið Kaupþingi bæði stórfelldu fjártjóni og verulegri fjártjónshættu. Dómur Hæstaréttar í Al Thani-málinu hefur verið álitinn hugsanlegur grundvöllur frekari málshöfðana. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur til að mynda sagt að vert sé að skoða hvort tilefni sé til skaðabótakröfu gegn slitabúi Kaupþings í ljósi 500 milljóna evra lánveitingar Seðlabanka Íslands til Kaupþings í miðju hruninu.