Í MP Molum 9. janúar síðastliðinn var fjallað um Eystrasaltslöndin og því velt upp hvort tækifæri liggi í örum vexti þjóðanna á hraðri leið þeirra að vestrænni menningu, segir fyrirtækjasvið MP fjárfestingarbanka.

?Af helstu mælieiningum má sjá að vaxandi neysla hefur gripið um sig í þessum löndum og því er áhugavert fyrir íslenska fjárfesta að skoða hvort að möguleikar liggi í neytendadrifinni þjónustu á þessu svæði," segir fyrirtækjasviðið.

Hagvöxtur í Lettlandi mældist 13,1% á fyrsta ársfjórðungi 2006 en hann hefur ekki mælst jafn mikill frá því að landið öðlaðist sjálfstæði, árið 1991.

?Þessi öri vöxtur skýrist einkum af vexti í verslun sem er 17,7% upp miðað við sama tímabil í fyrra, flutningar og fjarskipti (upp um 13,6%), framleiðsla (12,7%) og byggingariðnaðurinn er upp um 17,5%. Til samanburðar við 13,1% hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi þessa árs í Lettlandi má skoða spá fjármálaráðuneytisins um 4,7% hagvöxt hér á landi fyrir þetta ár og 5,5% hagvöxt árið 2005," segir fyrirtækjasviðið.

Stjórnmálamenn og fjármálasérfræðingar telja að þessi öri vöxtur sé ekki heilbrigður fyrir landið og hann geti leitt til ójafnvægis með tilliti til langtíma þróun markaðarins.

?Aðilar bjuggust þó við miklum vexti og höfðu spáð hagvexti um kringum 10% á fyrsta ársfjórðungi þess árs. Neytendadrifnir atvinnuvegir eru í miklum vexti í Lettlandi sem hefur orð á sér að vera mesta glamúr landið af Eystrasaltslöndunum þremur. Sem dæmi er vöxtur í viðskiptum með atvinnufasteignir, leigusamninga og annarri starfsemi tengdri þjónustu 18,5% á fyrsta ársfjórðungi en á síðustu árum hefur árlegur vöxtur þessa þáttar verið um 7%," segir fyrirtækjasviðið.

Hagvöxtur Lettlands nam 9,1% á síðasta ári ?og var drifinn til jafns af erlendri sem innlendri eftirspurn. Þessi öri hagvöxtur er nú að mestu drifinn af innlendri eftirspurn, þ.e.a.s. af neyslu almennings í landinu," segir fyrirtækjasviðið.

Með tilliti til þeirra hagtalna sem sjást í Lettlandi telur fyrirtækjasviðið að Lettar hafi fengið smjörþefinn af vestrænni neyslumenningu og ekki verði snúið til baka.

?Meðalvöxtur Evrópusambandslandanna árið 2005 var um 3,1%. Fyrir þessum fríða hóp fóru Eystrasaltslöndin, Lettland, Eistland og Litháen með 9,1%, 8,4% og 7,0% vöxt. Lettar virðast ekkert slá af og spurning hvort að nágrannarnir Litháar og Eistar fylgi ekki í kjölfarið og slá í klárinn. Á einhverjum tímapunkti mun án efa hægjast á vextinum en neytendadrifinn þjónusta í þessum löndum á þó enn töluvert eftir inni og án efa eru áhugaverð tækifæri fyrir íslenska fjárfesta sem hafa hug á að sækja austur á bóginn," segir fyrirtækjasvið MP fjárfestingarbanka.