„Framtakssjóðurinn stendur við samkomulag sitt við Triton um að ljúka viðræðum við hann áður en rætt verði við aðra," segir Ragnar Önundarson varaformaður stjórnar Framtakssjóðsins í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag um hugsanlega sölu á erlendri starfsemi Icelandic Group.

Ragnar útskýrir ekki í grein sinni af hverju farið var í lokaðar viðræður við fjárfestingarsjóðinn Triton áður en öðrum var gert kleift að bjóða í Icelandic. „Ákveðið var að þær viðræður yrðu leiddar til lykta áður en rætt yrði við aðra áhugasama. Það er eðlilegt að viðræður fari fram af fullum heilindum beggja vegna borðsins. Vonir standa til að viðræðum ljúki í þessum mánuði," segir Ragnar.

High Liner Foods í Kanada hefur lýst yfir áhuga á að koma að þessu söluferli. Í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn kom einnig fram að Ellert Vigfússon, fyrrverandi forstjóri Icelandic USA & ASIA, sem fer fyrir hópi fjárfesta ásamt breska fjárfestingarsjóðnum Better Capital, hefði viljað bjóða í IG. Þeir spyrja sig af hverju söluferlið á Icelandic Group hafi verið á huldu þangað til upp komst að viðræður stæðu yfir við Triton.