Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP Banka, og fleiri tóku rétt fyrir hádegi í dag fyrstu skóflustunguna að þremur fjölbýlishúsum sem fyrirhugað er að reisa á Bílanaustsreitnum við Mánatún og Sóltún í Reykjavík. Ekki var langt að fara fyrir Sigurð en reiturinn er fyrir aftan útibú MP Banka í Borgartúninu.

Á reiitnum verða reistar allt að 175 íbúðir ásamt bílageymslum í þremur fjölbýlishúsum, þ.e. Mánatún 1, Mánatún 7-17 og Sóltún 1-3. Heildarflatarmál íbúðarýmis verður um 20.000 fermetrar og er áætlaður verktími um þrjú ár. Þróunarvirði verkefnisins er sjö til átta milljarðar króna.

Verkefnið er samstarf MP banka hf., Klasa ehf., og Sveinbjörns Sigurðssonar hf. og fjármagnað af fjárfestum. Klasi hefur umsjón með stjórn verkkaupa, MP banki hf. hefur umsjón með fjármögnun og stýriverktaki  er Sveinbjörn Sigurðsson hf. Eitt af síðustu stóru verkum verktakafyrirtækisins eru nýju stúdentagarðarnir við Háskóla Íslands.

Tölvuteikning af fjölbýlishúsunum.
Tölvuteikning af fjölbýlishúsunum.