Stoðtækja- og stuðningsvöruframleiðandinn Össur náði að lækka rekstrarkostnað á árinu 2013 ásamt því að ná tilætluðum árangri í framleiðslu og vexti á tekjum. Þetta skilaði sér í meiri framlegð og hagnaði á fyrstu þremur ársfjórðungum 2014. Þetta segir Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar, sem situr í 7. sæti á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki.

Hann segir eftirspurnina vera tiltölulega óháða hagsveiflum þar sem nær allar vörur fyrirtækisins séu endurgreiddar af einhvers konar tryggingakerfi. „Bandaríkjamarkaður er okkar langstærsti markaður og allar breytingar á endurgreiðslu á þeim markaði hafa mikil áhrif á okkar rekstur, sem var tilfellið sérstaklega á árunum 2012 og 2013 en það var erfitt tímabil í sölu á stoðtækjum og hafði talsverð áhrif á heildarafkomu Össurar, en markaðurinn í Bandaríkjunum er hægt og rólega að komast í samt horf og fyrstu þrír ársfjórðungar 2014 voru góðir í sölu á stoðtækjum.“

Í fyrra keypti Össur stoðtækjaverkstæði í Skandinavíu en með þeim kaupum tengist fyrirtækið betur notendum og þeim endurgreiðsluaðilum sem greiða vöruna. „Á sama tíma felast í þessu áskoranir, þar sem rekstur stoðtækjaverkstæða er að ýmsu leyti frábrugðinn okkar kjarnarekstri,“ segir Sveinn.

Nánar í sérblaði Viðskiptablaðsins um framúrskarandi fyrirtæki sem unnið var í samstarfi Creditinfo. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn  Tölublöð .