"Það sem er einna mest íþyngjandi fyrir okkur núna er erlent lán sem sveitarfélagið tók til þess að auka við stofnfé í sparisjóðnum," segir Ragnar Jörundsson, sveitarstjóri Vesturbyggðar. Það sveitarfélag ber mestar skuldir og skuldbindingar á íbúa af öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum. Þær nema í heild rúmlega 1,4 milljónum á hvern íbúa. Ragnar segir heilt á litið þá hafi sveitarfélagið náð að halda ágætlega sjó þrátt fyrir kreppuna sem fylgt hefur í kjölfar hrunsins 2008. Tekjur hafi haldið sér vel, og séu svipaðar og fyrir hrun. Gengisbundin lán hafi hins vegar hækkað með falli krónunnar.

Erfiðasta vandamálið séu hins vegar þátttaka sveitarfélagsins í stofnfjáraukningu sparisjóðsins í byggðinni, sem heyrir undir Sparisjóð Vestfjarða. Hann var síðan sameinaður SpKef. "Þetta var talið skynsamlegt á þeim tíma þegar þetta var gert, árið 2007, ekki síst vegna þess að þetta var eina lánastofnunin sem var hér starfandi. Eitt sinn voru þrjár stofnanir hér en það er ekki núna. Skuldastaðan hefur hækkað um sem nemur 160 til 200 milljónir vegna lána sem tekin voru fyrir stofnfjáraukningunni. Það er þó ekki útséð með það ennþá hvernig þetta fer. Endurskipulagning sjóðsins mun ráða miklu um hvernig þetta fer hjá okkur, þ.e. hversu mikið stofnféð verður skrifað niður." Seðlabanki Íslands hefur, eins og greint er frá í Viðskiptablaðinu í dag, samið um endurskipulagningu sparisjóðanna en stofnfjáreigendur munu í mörgum tilfellum eiga síðasta orðið um hvernig það verður gert. Ragnar segir að mikið hafi verið lagt upp úr því að styrkja sparisjóðinn þegar stofnféð var aukið, og það hafi verið mat manna að skynsamlegt væri að taka þátt í stofnfjáraukningunni. Gengisbundið lán hafi síðan verið tekið vegna ráðgjafar frá lánastofnununum þar um. Þar hafi vaxtastig ráðið miklu, en gengisbundin lán báru miklu lægri vexti. Rúmlega helmingur af skuldum og skuldbindingum Vesturbyggðar eru tilkomnar vegna félagslegs íbúðakerfis og síðan lána sem tekin voru hjá Byggðastofnun þegar reynt var eftir fremsta megni að efla atvinnu í byggðinni. "Þetta eru íþyngjandi skuldir núna og ljóst að mál hafa ekki þróast eins og vonast var til. Ég hef þó fulla trú á því að sveitarfélagið muni ná vopnum sínum. Reksturinn í sveitarfélaginu er traustur, þrátt fyrir allt. Þá hefur einnig byggst upp ferðaþjónusta hér á undanförnum árum sem munar mikið um, og það þrátt fyrir samgöngur í byggðinni séu afleitar og stórhættulegar á köflum. Við erum bjartsýn og ég er viss um Vesturbyggð mun ná sér upp úr þessum áföllum sem fylgt hafa hruninu."