Miklar annir hafa verið á Alþingi í dag og hafa tólf frumvörp verið samþykkt sem lög frá Alþingi. Meðal þeirra frumvarpa sem samþykkt voru í dag, fimmtudag, er frumvarp um að dráttarvextir miðist framvegis við 7% álag ofan á algengustu skammtímalán Seðlabankans til lánastofnana.

Markmið frumvarpsins er að draga úr kostnaði fyrirtækja og heimila „vegna óhóflega hárra dráttarvaxta, sem leitt getur til mikilla greiðsluerfiðleika og komið í veg fyrir að aðilar geti komið sér út úr fjárhagsvandræðum," eins og segir í skýringum frumvarpsins.

Búast má við miklum önnum á Alþingi á föstudag en fjölmörg mál bíða afgreiðslu fyrir jólahlé.