Skotleikurinn Call of Duty: Black Ops, sem tölvuleikjaframleiðandinn Activision Blizzard framleiðir, hefur selst fyrir meira en einn milljarð Bandaríkjadala á heimsvísu. Það jafngildir um 117 milljörðum króna.

Einungis Call of Duty: Black Ops og kvikmyndin Avatar hafa halað inn yfir milljarði dala á svo skömmum tíma. Á fyrstu fimm dögunum í sölu seldist leikurinn fyrir 650 milljónir dala. Hefur engin kvikmynd, bók né tölvuleikur selst svo hratt áður.

Í frétt Reuters um málið segir að væntingar á Wall Street séu miklar til Activision, sem er skráð í kauphöll. Eru þær væntingar einnig byggðar á aukapakka fyrir tölvuleikinn World of Warcraft. Sala tövluleikja hefur þó dregist saman um 5% á árinu.