Tölvumiðstöð sparisjóðanna hefur fengið nýtt nafn og heitir nú Teris, segir í tilkynningu. Ákvörðun um þetta var tekin á aðalfundi félagsins á föstudaginn.

Nafnabreytingin er í takt við aukna áherslu þess á þjónustu við fyrirtæki utan sparisjóðanna. Teris er upplýsingatæknifyrirtæki sem þjónustar fjármálafyrirtæki og starfar sem upplýsingasvið þeirra. Hjá félaginu starfa um 100 manns og er Teris meðal stærstu upplýsingatæknifyrirtækja landsins.

Þjónustu Teris er skipt í lausnir fyrir viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Undir viðskiptabankalausnum má finna kortalausnir, inn- og útlánalausnir og almennar þjónustulausnir. Fjárfestingabankalausnir ná yfir markaðsviðskipti og eignastýringu, fjár- og áhættustýringu og einkabankaþjónustu.

"Félagið hefur þróast hratt síðustu árin og er í raun búið að sprengja utan af sér þann ramma sem settur var í upphafi. Teris er öflugt upplýsingatæknifyrirtæki sem er framarlega á sviði fjármálalausna og við ætlum okkur enn stærri hluti á þeim markaði í framtíðinni. Með nýju nafni og nýju skipulagi erum við enn betur í stakk búin til að verða eitt öflugasta upplýsingatæknifyrirtæki landsins,? segir Sæmundur Sæmundsson, forstjóri Teris.

Þjónusta Teris er á sviði grunnlausna í viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi, viðskipta á vefnum, í rekstri gagnavöruhúsa, kortalausna, áhættustýringar og ráðgjafar. Teris fylgir jafnframt viðskiptavinum sínum í útrás þeirra. Teris býður upp á rekstrarþjónustu við kerfi, hýsingu á gögnum og mjög öflugt þjónustuborð. Sérstaða félagsins er áralöng reynsla og þekking á rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja, en félagið var stofnað 10. mars 1989 og hefur því átján ára reynslu af upplýsingatækniþjónustu fyrir fjármálafyrirtæki. Teris byggir þjónustu sína á sveigjanleika, öryggi og persónulegum tengslum.

Teris er afbrigði af forn-gríska karlmannsnafninu Eleutherios sem merkti frjáls og óháður. Í forn-grísku er til sagnorðið tereo sem þýðir vernda eða vaka yfir.