Toyota hefur skotist upp í annað sætið yfir stærstu bílaframleiðendur í Bandaríkjunum, uppfyrir Ford, sem vermt hefur annað sætið á eftir General Motors í yfir 70 ár. Japanska fyrirtækið seldi 2,62 milljónir ökutækja vestra árið 2007, sem var 2,7% aukning frá fyrra ári. Sala Ford minnkaði um 12% og nam 2,57 milljónum ökutækja.

Í frétt frá MSN Money segir að búist sé við að Toyota velti General Motors úr sessi sem stærsti bílaframleiðandi heims, þegar fyrirtækin birti sölutölur fyrir heiminn árið 2007 í þessum mánuði. GM hefur verið á toppnum í 77 ár.