Hagnaður Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. eftir skatta var 890 milljónir króna fyrir árið 2004 samanborið við 547 milljónir árið á undan. Fjölgun farþega, meiri fjármunamyndun og þróun gengis- og vaxtamála setti verulegt mark á rekstur félagsins á árinu. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði jókst um rúmlega 30% milli ára.

Heildartekjur félagsins fyrir árið 2004 námu um 5.848 milljónum króna og jukust því um tæp 28% milli ára. Það er aukning um 1.285 milljónir króna sem er mun meira en gert var ráð fyrir í rekstraráætlun. Einnig hefur verslunarframlegð aukist milli ára og mun meira en áætlun gerði ráð fyrir. Vert er að geta þess að í ársreikningi 2004 er í fyrsta sinn sýnt samstæðuuppgjör þar sem rekstur Íslensks markaðar ehf. er lagður við rekstur FLE hf. Heildartekjur Íslensks markaðar í samstæðuuppgjöri ársins 2004 námu um 577 milljónum króna.

Veltufé frá rekstri, samkvæmt sjóðsstreymi er um 1.588 milljónir króna árið 2004 og hækkaði um rúmlega 400 milljónir á milli ára. Árið 2004 er veltufé um 27% af rekstrartekjum samanborið við um 26% árið 2003.

Vegna verulegrar uppbyggingar flugstöðvarinnar námu fjárfestingar félagsins á síðasta ári rúmlega 2.300 milljónum króna en voru rúmlega 200 milljónir árið 2003. Nettó skuldir félagsins þ.e. skuldir að frádregnum veltufjármunum hafa hækkað um 834 milljónir á árinu. Eigið fé félagsins hefur vaxið úr 3,3 milljörðum króna við stofnun þess 1. október 2000 í 5,3 milljarða þann 31. desember 2004. Greiddur var 15% arður til eigenda, alls 375 milljónir. Eiginfjárhlutfallið er 39,4% í árslok 2004.