Undirritaður hefur verið samningur um kaup TrackWell á lausnum og rekstri SeaData. Helstu lausnir SeaData eru Rafræn afladagbók, Útgerðarstjórinn og Afurðabók. SeaData kerfið skráir upplýsingar um ferðir og veiðar fiskiskipa og sendir rafrænar upplýsingar til útgerða og Fiskistofu. Kerfið hefur náð ágætri útbreiðslu hjá útgerðum á Íslandi og erlendis. Meðal viðskiptavina eru Brim hf, Síldavinnslan, Þorbjörn Fiskanes, Vísir hf og Samherji.

Sérhæfing TrackWell liggur í gagnaskráningum og ferilvöktun á forðum fyrirtækja s.s. bílum, skipum og fólki. Meðal lausna TrackWell á þessu sviði eru TracScape flotastýringarkerfið og Tímon, tíma og viðverukerfið sem er í notkun hjá yfir 100 fyrirtækjum hérlendis. Markmið með kaupunum er að ná fram frekari samþættingu á núverandi lausnum TrackWell og lausnum SeaData, en TrackWell hefur áralanga reynslu úr sjávarútvegsgeiranum. Þar má nefna að TracScape hefur frá upphafi verið notað við sjálfvirka tilkynningarskyldu skipa sem og fyrir Fjareftirlitskerfi Landhelgisgæslu og Fiskistofu. Auk þess nota NAFO og NEAFC, sem eru eftirlitsstofnanir með veiðum á úthöfunum, kerfi TrackWell fyrir sína starfsemi. Með samþættingu SeaData lausnanna við kerfi TrackWell opnast ný tækifæri til markaðssetningar SeaData lausnanna á erlendum vettfangi.

Að sögn Jóns Inga Björnssonar framkvæmdastjóra TrackWell eru kaupin liður í að styrkja sókn TrackWell á forða- og flotastjórnunarkerfum fyrir fyrirtækjamarkað hér á landi og erlendis. ?TrackWell hefur að mestu unnið fyrir ríkisstjórnir, stofnanir og símfélög um allan heim en á síðasta ári hófum við sókn inn á fyrirtækjamarkað. Með samruna við Grunn Gagnalausnir í fyrra erum við komnir með öflugar lausnir sem snúa að almennri forðastjórnun og nú með samningi við SeaData getum við boðið útgerðaraðilum mjög góðar aflaskráningar- og staðsetningarlausnir". Garðar Rafn Eyjólfsson framkvæmdastjóri SeaData segir að með því að færa rekstur SeaData til TrackWell sé þjónusta við núverandi viðskiptavini aukin, auk þess sem hægt verði að setja meiri kraft í markaðssókn hérlendis og erlendis á lausnum fyrirtækisins segir í tilkynningu félagsins.