Nokkrir trúnaðarmenn starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur hafa kynnt stjórnendur fyrirtækisins tillögur um hvernig megi komast hjá fjöldauppsögnum með því að ná fram verulegum sparnaði með starfshlutfallsskerðingu. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi flokksins, hefur óskað eftir aukafundi í stjórn fyrirtækisins vegna yfirvofandi fjöldauppsagna.

Í síðustu viku staðfesti Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar við Viðskiptablaðið að stéttafélögum hafi verið tilkynnt um hópuppsagnir á næstunni.

„Kjartan Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, telur það ámælisvert að umræddar tillögur hafi ekki verið kynntar fyrir stjórn fyrirtækisins. Því er óskað eftir því að tillögurnar verði kynntar og ræddar í stjórn fyrirtækisins svo tryggt sé að hagræðingarvinna þess fari fram í sem bestri sátt við starfsmenn,“ segir í tilkynningu.