Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, hefur óskað eftir því að hann láti af störfum sem forstjóri fyrirtækisins þann 31. mars næstkomandi. Hann mun áfram vera starfsmaður RARIK og starfa sem ráðgjafi stjórnar og nýs forstjóra og enn fremur í sérstökum verkefnum. Þetta kemur fram í tilkynningu RARIK til Kauphallarinnar.

Tryggvi Þór hefur starfað sem forstjóri RARIK í 19 ár og þar á undan í ýmsum öðrum störfum innan fyrirtækisins í yfir 23 ár meðal annars sem umdæmisstjóri á Norðurlandi eystra í 10 ár. Því hefur Tryggvi starfað hjá fyrirtækinu í tæp 42 ár, en stjórn RARIK er að hefja ráðningarferli til að ráða nýjan forstjóra.

Tryggvi Þór í bréfi til starfsmanna:

„Eins og sum ykkar vita hefur það lengi verið skoðun mín að það sé ekki heppilegt fyrir fyrirtæki að forsvarsmenn þeirra haldi starfi sínu allt þar til þeir neyðast til að hverfa úr því vegna aldurs og fara þá úr fyrirtækinu með reynslu sína og þekkingu, án þess að hún yfirfærist með eðlilegum hætti til eftirmanna. Heppilegra sé að víkja úr starfi stjórnanda fyrr, þótt áfram sé starfað hjá fyrirtækinu.

Ég veit að þessi ákvörðun kann að koma einhverjum á óvart og vissulega kallar þetta á breytingar, en þeim fylgja tækifæri. Tækifæri til að gera enn betur. Nýr forstjóri nýtur þess að hafa á bak við sig bæði frábært starfsfólk og samhenta stjórn og get ég því áhyggjulaus stigið til hliðar, þótt því fylgi bæði eftirsjá og ákveðin tilhlökkun. Mikilvægast er að þetta er að mínu mati heppilegast fyrir fyrirtækið."