Árið 2006 voru 70 börn ættleidd á Íslandi og fækkaði þeim um fimm frá fyrra ári. Alls voru 37 börn stjúpættleidd en 33 börn voru frumættleidd.


Stjúpættleiðingum fjölgaði árið 2006 miðað við fyrri ár. Þær urðu alls 37 en voru 27 árið 2005. Í flestum tilvikum var kjörforeldri stjúpfaðir, eða í 32 tilvikum, stjúpmóðir í tveimur tilvikum og þrír einstaklingar í staðfestri samvist ættleiddu barn maka síns.

Af 33 frumættleiddum börnum árið 2006 voru 14 ættleidd frá útlöndum. Er það nokkur fækkun miðað við fyrri ár. Flestar frumættleiðingar frá öðrum löndum voru árið 2005 eða 41. Breytinguna milli ára má að mestu rekja til fækkunar frumættleiðinga frá Kína, en árið 2006 voru þær 8 samanborið við 35 árið áður. Á tímabilinu 1996?2006 hafa flest erlend frumættleidd börn komið frá Kína, eða 89 stúlkur og einn drengur. Frumættleiðingar innanlands voru hins vegar fleiri 2006 en árin á undan eða 19 samanborið við 7 árið 2005.

Með hugtakinu stjúpættleiðing er átt við ættleiðingu á barni maka umsækjanda. Með hugtakinu frumættleiðing er um að ræða ættleiðingu á barni sem ekki er barn maka umsækjanda.