Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt um tuttugu manna samkomutakmarkanir og tveggja metra reglu. Nýja reglugerðin tekur gildi á miðnætti annað kvöld og mun að óbreyttu vara í þrjár vikur. Þetta sagði Willum að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum fyrir stuttu.

Síðustu vikur hafa verið í gildi 50 manna samkomutakmarkanir og eins metra regla. Stjórnvöld ætla einnig að lækka hámarksfjölda sem má koma saman á fjöldaviðburðum, þar sem hraðpróf og grímur eru notaðar, úr 500 í 200 manns.

Þá verður leyfilegur opnunartími veitingastaða og annarra staða þar sem áfengisveitingar eru heimilar styttur um einn klukkutíma. Veitingastöðum verðu nú óheimilt að hleypa inn nýjum viðskiptavinum kl. 21:00 og allir gestir eiga að vera farnir hið síðasta kl. 22:00.

Sund- og baðstaðir, líkamsræktarstöðvar og skíðasvæði verður heimilt að taka má móti 50% af hámarksfjölda gesta. Íþróttaæfingar og keppnir barna og fullorðinna verða heimilar, jafnt með eða án snertingar, fyrir allt að 50 manns.

Ríkisstjórnin ákvað að framlengja ekki jólafrí skólanna líkt og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði til í minnisblaði, samkvæmt RÚV .

Í gær greindust 286 kórónuveirusmit innanlands og hafa þau aldrei verið fleiri. Þá greindust 27 smit á landamærunum. Alls eru nú 2.023 manns í einangrun með virkt smit og 3.028 í sóttkví.

Fréttin var uppfærð eftir að heilbrigðisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu.

Leiðrétt: Upphaflega stóð að nýjar sóttvarnarreglur taki gildi á miðnætti en rétt er að reglurnar taka gildi á miðnætti annað kvöld.