Eignir Vefpressunnar fjórfölduðust á árinu 2010. Tæplega 60% þeirra voru óefnislegar eignir, kröfur á tengda aðila og ógreidd hlutafjárloforð um síðustu áramót. Alls tapaði Vefpressan, sem rekur m.a. vefmiðlana Pressuna, Eyjuna, Bleikt, og Menn, 8,6 milljónum króna í fyrra. Það er mun minna en árið áður þegar félagið tapaði 30,3 milljónum króna. Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður og útgefandi Vefpressunnar, Arnar Ægisson, framkvæmdastjóri hennar, og félög í þeirra eigu eiga samtals um 57% hlut í félaginu. Þetta kemur fram í óendurskoðuðum ársreikningi Vefpressunar sem skilað var inn til ársreikningaskráar í síðustu viku.

Skuldir þrefölduðust

Velta Vefpressunnar er ekki tilgreind í rekstrarreikningi hennar en í frétt sem birt var á Pressunni. is nýverið kom fram að rekstrartekjur félagsins hefðu verið 107,6 milljónir króna en rekstrargjöld 108,4 milljónir króna.

Eignir Vefpressunar jukust mikið í fyrra og stóðu í 111,4 milljónum króna um síðustu áramót. Tæplega 60%af eignum félagsins eru óefnislegar eignir, kröfur á tengda aðila og ógreidd hlutafjárloforð. Skuldir þrefölduðust á árinu 2010 og stóðu í 34,5 milljónum króna. Eigið fé Vefpressunnar var því 76,9 milljónir króna í lok síðasta árs samkvæmt ársreikningnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.