ORF Líftækni hf. hefur ráðið til sín tvo nýja starfsmenn. Ráðningarnar eru liður í aukinni vöruþróun og vél- og sjálfvirknivæðingu á framleiðslu BIOEFFECT vörulínu fyrirtækisins.

Hafsteinn Rannversson fer í nýtt starf sérfræðings í vöruþróun og blöndun húðvörugrunna fyrir BIOEFFECT snyrtivörur félagsins. Hafsteinn hefur lokið bæði meistara- og doktorsgráðu í lyfjafræði og lyfjavísindum frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann hefur birt vísindagreinar á sviði lyfjafræði og próteinvísinda, þar á meðal í hinu virta vísindatímariti Nature Communications. Þekking hans mun nýtast vel í starfinu, en hann mun vinna með snyrtivörur sem innihalda lífvirk prótein sem og snyrtivörur án slíkra próteina. Auk þess eru fleiri vöruþróunarverkefni í gangi sem tíminn mun leiða í ljós hvort muni verða að fleiri nýjum vörum.

Jóhannes Davíð Hreinsson tekur við starfi forstöðumanns tækja- og eignaumsýslu. Jóhannes hefur lokið rafvirkja- og vélvarðarnámi og hefur víðtæka reynslu af alhliða tæknimálum, meðal annars uppsetningu og forritun iðntölva. Síðustu átta árin hefur hann starfað sem tæknistjóri hjá TG Raf ehf. í Grindavík. Jóhannes mun hafa umsjón með verkþáttum sem snúa að fasteignum, vél- og tölvubúnaði félagsins og stýra verkefnum vegna aukinnar vél- og sjálfvirknivæðingar.