1,6 milljarða viðskipti voru í dag með bréf Marel, sem lækkuðu í þeim niður um 0,67%, og nam lokagengi bréfa félagsins 596 krónum. Eru þetta tveir þriðju hlutar þeirra 2,4 milljarða heildarviðskipta sem voru í kauphöll Nasdaq á Íslandi í dag, en í þeim lækkaði úrvalsvísitalan um 0,51%, niður í 1.788,34 stig.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Reita, eða fyrir 240,8 milljónir króna, en bréf fasteignafélagsins lækkuðu um 0,21%, og nemur lokagengi þeirra nú 48,10 krónum. Þriðju mestu viðskiptin voru með bréf VÍS, eða fyrir 115,4 milljónir króna, en bréf tryggingafélagsins lækkuðu um 0,46%, niður í 9,62 krónur.

Mest lækkun var á gengi bréfa Icelandair, eða um 8,42% og er gengi bréfa flugfélagsins nú komið niður í 1,74 krónur, eftir þó ekki nema 27 milljóna króna viðskipti. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Haga, eða um 1,73%, í 47 milljóna viðskiptum og nam lokagengi bréfa félagsins 45,50 krónum. Þriðja mesta lækkunin var á gengi bréfa Sjóvá eða um 1,62%, niður í 18,20 krónur, í 21 milljóna króna viðskiptum.

Gengi bréfa Skeljungs hækkaði aftur á móti mest í viðskiptum dagsins, eða um 1,64%, upp í 7,42 krónur, í 49 milljóna króna viðskiptum. Bréf Eimskipafélags Íslands hækkuðu næst mest, eða um 1,61%, í mjög litlum viðskiptum þó eða fyrir 131 þúsund krónur, og fór gengið í 126 krónur. Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi bréfa Símans, eða um 1,24%, upp í 5,72 krónur, í litlum 630 þúsund króna viðskiptum.