Í dag mun Kristján L. Möller, samgönguráðherra, opna síðasta kaflann í tvöföldun Reykjanesbrautar við Stapahverfi í Reykjanesbæ og vígja þar með tvöfalda Reykjanesbraut frá Hafnarfirði til Njarðvíkur. Athöfnin fer fram kl. 14:00 og að henni lokinni verður umferð hleypt á þennan síðasta kafla.

Fyrri hluti tvöföldunar, frá Hvassahrauni á Strandarheiði, hófst í janúar 2003 og lauk í október 2004. Seinni hluti, frá Hvassahrauni að Njarðvík, var boðinn út í september 2005. Eftir að Jarðvélar ehf. sögðu sig frá verkinu var það boðið út að nýju sl. vor. Fyrst var miðað við að umferð yrði hleypt á tvöfalda Reykjanesbraut 16. október en þar sem óvenju langan tíma tók að semja við verktaka (lægstbjóðandi var ekki metinn hæfur) var miðað við að umferð yrði hleypt á tvöfalda braut alla leið 1. nóvember, og er verkinu því lokið hálfum mánuði fyrr en endurskoðuð tímaáætlun gerði ráð fyrir.

Samið var við Ístak hf. um byggingu nýju akbrautarinnar en við Eykt ehf. um smíði brúa.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Vegagerðinni.