Nú mun leigubílaþjónustan Uber hefja mótorhjólaþjónustu á strætum Bangkok. Viðskiptavinurinn mun þá geta pantað sér mótorhjól gegnum snjallsíma sinn sem kemur svo að sækja hann. Fréttaveita Bloomberg segir frá þessu.

Umferð í Bangkok er alræmd fyrir að vera gífurlega hægfara og stöppuð. Lausnin er fyrir mörgum sú að leigja sér mótorhjól, sem geta sveigt á milli bifreiðanna sem eru fastar í umferðarþröng.

Þegar eru mótorhjól vinsæl í þessari stórborg, sem er höfuðborg Tælands, en Uber vill koma sér yfir dágóðan hluta markaðarins. Tæland gæti verið mjög góður staður til að hefja rekstur á slíkri mótorhjólaleigu, þar eð mótorhjól eru og hafa lengi vel verið stór hluti af samgöngumenningu þjóðarinnar.

Nánast hvert sem farið er um Bangkok má finna leiguhjól og svokallaða 'tuk-tuk' vagna, sem hægt er að leigja fyrir tiltölulega litlar upphæðir sé miðað við að taka leigubíl.