Kaupmenn í Vestmannaeyjum eru að klára undirbúning fyrir Þjóðhátíð, en ekki eru þeir allir sáttir við utanaðkomandi samkeppni. Bæjarins bestu hafa opnað pylsuvagn og fór það fyrir brjóstið á Hólmgeiri Austfjörð, veitingamanni á 900 Grill, en fjallað er um málið í Eyjafréttum . Sendi hann Elliða Vignissyni bæjarstjóra erindi og spurði hver gæfi leyfi fyrir slíkri starfsemi og hvort það væri vilji yfirvalda að „atvinnurekendur í Vestmannaeyjum loki sínum fyrirtækjum yfir Þjóðhátíð svo aðkomufólk geti séð um alla verslun“.

Í svari Elliða kemur fram að bærinn hafi gefið BB leyfi til að vera með vagn á sama stað og aðrir söluvagnar hafa verið í sumar, enda ekki annað hægt á grundvelli jafnræðis. Þá sagði hann að það væri undir hverjum atvinnurekanda að meta hvort hann myndi hafa opið um helgina, en flestir sem reki þjónustufyrirtæki sjái sér hag í að hafa opið yfir Þjóðhátíð.