“Bóksala fyrir þessi jól var góð og án þess að hafa tekið það nákvæmlega saman mundi ég slá á að aukningin í sölu íslenskra bóka frá í fyrra væri um 20%,” sagði Bryndís Loftsdóttir innkaupastjóri íslenskra bóka hjá Máli og menningu í samtali við vb.is.

“Fjöldi bókatitla í ár var 960 miðað við rúmlega 700 í fyrra. Dreifingin er því mikil og margir titlar að seljast í litlu uppagi. Ég efast því um að útgáfa margra þessara bóka hafi borgað sig. Harðskafi eftir Arnald Indriðason og Bíbí eftir Vigdísi Grímsdóttur seldust mjög vel og svo seldist Leyndarmálið sem er íslensk þýðing á The Secret einnig mjög vel. Bókin Konur geta ekki verið hamingjusamar af því að þær eru með svo litlan heila kom svo rosalaga á óvart síðustu vikuna fyrir jól og var mikill spútnik í sölu og fór í fjórða sæti sölulistans,” sagði Bryndís.

“Að mínu mati var árið annars ekki mjög sterkt hvað varðar útgáfu á íslenskum skáldsögum. Það vantaði marga góða höfunda en þó gleðilegt hvað bók eins og Himnaríki og Helvíti eftir Jón Kalman var góð og tók góðan sölu kipp eftir að farið var að vekja athygli á henni,”sagði Bryndís.

Þúsund bjartar sólir

“Þúsund bjartar sólir eftir Khaled Hosseini, höfund Flugdrekahlauparans, var í öðru sæti yfir söluhæstu bækurnar síðustu vikuna fyrir jól og jafnframt eina þýdda bókin á þeim lista fyrir þessi jól.

Ég hef ekki undir höndum lista yfir söluhæstu erlendu bækurnar fyrir þessi jól enda um allt öðruvísi sölumunstur að ræða. Titlarnir eru miklu fleiri og dreifing sölurnar yfir árið allt öðruvísi. Ætli söluhæsta erlenda bókin í ár sé ekki enska útgáfan af Harry Potter sem kom út í sumar og hefur selst í um 5000 eintökum en hún komst ekki inn á topp 10 listann síðustu vikuna fyrir jól að þessu sinni í íslenskri þýðingu. Og þar er greinileg breyting á,” sagði Bryndís.

Bækur almenns eðlis

Aðspurð segir Bryndís að af bók sem flokkaðar eru undir hinn furðulega flokk Bækur almenns eðlis hafi Stiklað á stóru um næstum allt eftir Bill Bryson selst mjög vel. “Enda ógeðslega fyndin og skemmtileg bók sem allir ættu að lesa. Sú bók kom út rétt fyrir jól og salan á henni rauk strax í gang. Auk hennar seldist bókin Maðurinn líka mjög vel.

Útgáfa á matreiðslubókum tók kipp fyrir þessi jól eftir að hafa legið niðri í nokkur ár og salan á þeim var ágæt.

Bókasalan milli ára gengur í bylgjum. Sem dæmi um það þá var lítið um þýddar skáldsögur í boði fyrir nokkrum árum en svo tóku útgefendur upp á því að leita út fyrir hinn engissaxneska heim og þýða bækur frá fjarlægari löndum og þá rauk salan aftur í gang,” sagði Bryndís.

Ný gerð minningabóka

Bryndís segir að lokum að um þessi jól hafi hún séð nýja gerð bóka. “Hér er um að ræða bækur eftir eldra fólk sem það gefur út sjálft. Margir af þessum höfundum hafa unnið við tölvur í tíu til fimmtán ár en eru hættir að vinna og til þess að hafa eitthvað fyrir stafni skrifar það endurminningar sínar, gefur þær út og dreifir sjálft. Þessar bækur eru skemmtilegt andsvar við ljóðabækur háskólanemanna. Það var til dæmis ein eldri kona sem kom með tvær bækur til okkar. Önnur var um tengdaföður hennar en hin um systur hennar. Persónulega vonast ég eftir að sjá meira af þessu í framtíðinni því þetta eru öðruvísi bækur en forlögin eru að gefa út,” sagði Bryndís Loftsdóttir innkaupastjóri íslenskra bóka hjá Máli og menningu að lokum.