Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku horfir Landsvirkjun, undir stjórnar nýlega ráðins forstjóra, Harðar Arnarsonar, nú til þess að fjármagna virkjanaverkefni sín í auknum mæli með eigið fé, sem oft hefur verið nefnt verkefnafjármögnun. Það þýðir að fjárfestar koma með fjármagn inn í virkjanaframkvæmdir og eiga ákveðinn hluta í virkjunum, á grundvelli samnings um ávöxtun, í umsaminn tíma. Horft er til þess að 30% af fjármögnun einstakra virkjana geti komið frá fjárfestum á einkamarkaði, sem þó horfa til langs tíma vegna eðli verkefnisins.

Bandaríski fjárfestirinn Steve Munson horfir ekki síst til þessa fyrirkomulags, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, líkt og reyndar aðrir fjárfestar s.s. íslenskir lífeyrissjóðir. Þannig gætu fjárfestar komið að virkjanaframkvæmdum í samstarfi við Landsvirkjun og með því takmarkarkað lántökur vegna virkjanaframkvæmda. Til þessa hafa virkjanaframkvæmdir verið fjármagnaðar að öllu leyti með lánum. Þeistareykir ehf. sem er í eigu Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur, Landsvirkjunar og að litlu leyti Þingeyjarsveitar, er það félag sem unnið hefur að beislun jarðhitaorku á svæðinu. Samningur um kaup Landsvirkjunar á tæplega þriðjungshlut Norðurorku í Þeistareykjum ehf. er ekki enn genginn í gegn þar sem Samkeppniseftirlitið hefur ekki afgreitt umsögn um kaupin. Það hefur síðan leitt til þess að kaup Landsvirkjunar á hlut Orkuveitu Húsavíkur í félaginu hafa ekki gengið í gegn, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, en það söluferli er langt á veg komið. Fjárfesting Norðurorku og Orkuveitunnar í félaginu hefur reynst félögunum íþyngjandi, ekki síst vegna falls krónunnar þar sem lán sem hvíla á félögunum vegna Þeistareykja ehf., eru í erlendri mynt. Skuldir Norðurorku eru íþyngjandi fyrir Akureyrarbæ og skuldir Orkuveitu Húsavíkur vega þungt í efnahagsreikningi Norðurþings en síðarnefnda sveitarfélagið er eitt fimm sveitarfélaga í landinu sem er með neikvæða eiginfjárfstöðu, upp á 208 milljónir, miðað við fjárhagsáætlun fyrir árið 2010.