Um 70 prósent landsmanna vilja að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, synji staðfestingar á lögum um ríkisábyrgð handa Tryggingasjóði innstæðueigenda, vegna Icesave-reikninga Landsbankans.

Þetta er niðurstaða könnunanr sem MMR vann fyrir Viðskiptablaðið.

Þá telja 61,4 prósent að breytingarnar sem gerðar voru á fyrirvörunum við ríkisábyrgðina vegna Icesave, frá því að frumvarp þess efnis var fyrst samþykkt á Alþingi, hafi verið til hins verra fyrir Ísland.

Um 13 prósent telja þær hafa verið til hins betra en rúmlega fjórðungur taldi breytingarnar fela í sér óbreytta stöðu fyrir Ísland.

Stuðningur við það viðhorf að ekki eigi að synja lögum staðfestingar eykst eftir því sem menntun svarenda í könnunni er meiri. Þannig telja um 46,5 prósent þeirra sem eru með háskólapróf að staðfesta eigi lögin en þegar horft er yfir allan hóp svarenda telja um 30,8 prósent að forseti Íslands eigi ekki að synja lögum um ríkisábyrgðina staðfestingar.

Mestur er stuðningur við það, að Ólafur Ragnar synji ekki lögunum staðfestingar, meðal stjórnenda í atvinnulífinu og embættismanna, eða 49 prósent.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .