„Dómur Hæstaréttar nr. 462/2010 um að ekki hafi verið rétt sú ákvörðun sýslumanns að afmá veðréttindi á ábyrgðaraðila við greiðsluaðlögun, þar sem veðréttur njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sýnir verulega bresti í því úrræði sem greiðsluaðlögun á að vera." Telur Umboðsmaður skuldara brýnt að hafin verði endurskoðun á lagalegum úrræðum hið fyrsta til að ráða bót á þessu vandamáli.

Í fréttatilkynningu embættisins kemur fram að umboðsmaður hafi í dag átt mjög góðan fund með Guðbjarti Hannessyni, félags- og tryggingamálaráðherra, þar sem farið var yfir þá alvarlegu stöðu í greiðsluaðlögun sem upp er komin.

Umboðsmaður skuldara segir að áhrif dóms Hæstaréttar á einstaklinga í greiðsluaðlögun geta verið veruleg en þann 1. ágúst höfðu um 550 einstaklingar hafa fengið samþykktan nauðasamning til greiðsluaðlögunar.

„Falli ábyrgð ekki niður samhliða samningi um greiðsluaðlögun getur ábyrgðarmaður átt endurkröfurétt á þann sem fór í greiðsluaðlögunina, sem getur leitt til gjaldþrots skuldarans og er þá greiðsluaðlögunin fyrir bí. Fái ábyrgðarmaður ekkert upp í kröfu sína, vegna slæmrar stöðu skuldara getur ábyrgðarmaðurinn jafnframt þurft að leita eftir greiðsluaðlögun eða jafnvel farið í gjaldþrot. Getur þetta því haft veruleg dómínó-áhrif sem eykur á skuldavandann.

Sú vitneskja að greiðsluaðlögunarferlið leiði til þess að lán falli á ábyrgðarmenn, sem í mörgum tilfellum eru nánir ættingjar eða vinir, getur fælt fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum frá því að sækja um greiðsluaðlögun.

Það er einnig umhugsunarvert hvort það sé hagsmunum fjármálafyrirtækja fyrir bestu að sækja svo fast sinn rétt að markmið greiðsluaðlögunar nái ekki fram að ganga fyrir heimilin í landinu.

Áhrif þessa hæstaréttardóms munu ganga þvert gegn markmiðum laga um greiðsluaðlögun, sem var að aðstoða fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum. Með lögunum var verið að bregðast við alvarlegu ástandi í kjölfar efnahagshrunsins til að bæta stöðu skuldara. Jafnframt áttu lög nr. 32/2009 að bæta lagalega stöðu ábyrgðarmanna. Standist þessar lagabætur ekki, þar sem þær ganga gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar, þarf að finna leiðir til að bæta úr því hið fyrsta og verja réttindi skuldara og ábyrgðarmanna.

Skv. 3. mgr. 9. gr. laga 32/2009 um ábyrgðarmenn segir að nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka hafi sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni. Í því máli sem dómur Hæstaréttar snýst um hafði til veðréttarins verið stofnað áður en lög um ábyrgðarmenn tóku gildi og segir Hæstiréttur því rétti ekki hafa bersýnilega verið lokið þegar þinglýsing var afmáð. Skuli þinglýsingin því standa.”

Vakin er athygli á því að í nóvember verður málflutningur fyrir Hæstarétti í öðru máli sem snýr að sjálfskuldarábyrgð ábyrgðamanna. Sú niðurstaða mun reyna á sömu ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðamenn.