Kanadíska jarðvarmafyrirtækið Magma Energy gekk frá kaupum sínum á HS Orku síðastliðið sumar. Sænskt dótturfélag þess á nú 98,53% hlut í orkufyrirtækinu. Kaupin vöktu upp miklar pólitískar deilur og Vinstri græni hluti ríkisstjórnarinnar reyndi hvað hann gat til að koma í veg fyrir þau.

Meðal annars var nefnd um erlenda fjárfestingu látin kanna lögmæti kaupanna og ríkisstjórnin sérskipaði nefnd til að gera slíkt hið sama. Báðar komust að sömu niðurstöðu um að kaupin stæðust lög. Í millitíðinni hafði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra boðað að íslensk löggjöf væri í undirbúningi sem myndi takmarka eignarhald erlendra aðila á orkufyrirtækjum. Samkvæmt henni ættu þeir í mesta lagi að fá að eiga 49% í slíkum fyrirtækjum.

Lítið hefur farið fyrir þeim hugmyndum að undanförnu. Viðskiptablaðið upplýsti um það í janúar að Magma hefði keypt ódýrar aflandskrónur með afslætti erlendis í sama mánuði og íslensku bankarnir féllu árið 2008. Krónurnar voru að nokkru leyti notaðar til að fjármagna hluta af staðgreiðslu Magma fyrir hluti sem fyrirtækið keypti í HS Orku.

Þeir sem áttu slíkar aflandskrónur gátu komið þeim til Íslands framhjá gjaldeyrishöftum með því að kaupa skuldabréf sem innlend eignarhaldsfélög gefa út. Magma Energy á Íslandi, dótturfélag Magma Energy, gaf út slík skuldabréf 16. apríl síðastliðinn sem móðurfélagið keypti. Skömmu síðar gekk félagið frá lokahnykk kaupa sinna á HS Orku.