Umferðin um þrjú mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu jókst um þrjú prósent í nóvember en nú reiknar Vegagerðin með að umferðin á svæðinu í ár aukist um 3,3 prósent og verði mesta umferð sem mælst hefur á einu ári hingað til. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Í tilkynningunni segir jafnframt að umferð hafi aukist að jafnaði um 1,7% í nóvember, á milli ára, á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2005. Þessi aukning nú er því tæplega tvöfalt meiri en meðaltalið.

Mestar líkur eru á því að heildarumferðin verði um 3 til 3,5% meiri en hún varð á síðasta ári samkvæmt spá Vegagerðarinnar en það myndi þýða um 1 - 1,5% meiri umferð en metárið 2008.