Allt útlit er fyrir það að Íslendingar muni einhliða ákveða eigin makrílvóta eftir að þríhliða samkomulag ESB, Noregs og Færeyja var gert án okkar. Þá er spurning hvernig þeim veiðum verður stýrt. Sú krafa er uppi að aflamark í þessari tegund verði boðið upp í stað þess að þeir sem hingað til hafi stundað veiðar fái kvótann. Í viðtali við Viðskiptablaðið segist Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ, þó setja margar spurningar við uppboð.

„Ég hef aldrei alveg heyrt útfærsluna á því sem menn hafa verið að tala um með þessu uppboði. Hver er hún? Hvað ætla menn að innheimta fyrir þetta? Ég hef heyrt tölur semeru svo fjarstæðar að þær taka engu tali. Ætla menn að hugsa þetta þannig að menn séu að láta greiða þarna auðlindagjöld í eitt skipti fyrir öll og menn halda svo makrílkvótanum? Er verið að kaupa hann varanlega þannig að það sé þá ekkert verið að greiða í veiðigjöld eftir það? Hvernig ætla menn að reikna þetta út? Er þetta miðað við aflaverðmæti síðasta árs? Ætla menn að reikna þá inn í mögulegar sveiflur á stofninum? Ætla menn að taka inn í þær fjárfestingar sem menn eru búnir að ráðast í? Hvað ætlarðu að selja hann til langs tíma?

Hverjar eru forsendurnar fyrir því? Þarna henda menn fram einhverju slagorði og smella inn einhverju aflaverðmæti án þess að taka inn nokkurn skapaðan hlut annan,“ segir Kolbeinn. Þessi umræða sé stödd á einhverjum stað sem kalli ekki einu sinni á vitræn svör því það sé engin undirstaða undir þeim. Það sé afstaða LÍÚ að ef verið sé að ræða um langtímasamninga og greiðslu veiðigjalda vegna þeirra samninga, þá sé langeðlilegast að hafa sömu regluna fyrir alla stofna. Gjald sé tekið vegna afnota a fiskistofnunum og reiknist þá árlega eftir þeim leikreglum sem hafi verið settar upp. En þær leikreglur hljóti þá að taka mið af afkomunni á hverjum tíma.

„Mér finnst mjög óeðlilegt að ætla að taka þennan stofn út fyrir einhvern sviga og ætla að láta einhverjar aðrar leikreglur gilda um hann,“ segir Kolbeinn. Kolbeinn segir líka að atburðarásin hafi ekki verið þannig að makríllinn hafi synt hér upp að landi og menn byrjað að veiða fyrirhafnalaust. Það hafi verið fjárfest mikið til að mögulegt hafi verið að veiða makrílinn og nýta hann til manneldis.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .