Norski bankinn Bolig- Og Næringsbanken (BNbank), sem er í eigu Glitnis, hefur tryggt sér 225 milljóna evra (21,1 milljarða íslenskra króna) sambankalán og segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins að töluverð umframeftirspurn hafi verið eftir láninu.

Þýski bankinn BayernLB, Danske Bank og slésvíski bankinn HSH Nordbank hafa umsjón með láninu.

Gary Smith, einn sérfræðinga sambankalánadeildar Danske Bank í London, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að umrót á íslenskum fjármálamarkaði hafi ekki haft veruleg áhrif á getu BNbank til að safna fjármagni.

Hann benti á að vaxtakjörin hafi batnað á milli ára en að einhverjir bankar hafi þó neitað að taka þátt í láninu á þeim forsendum að bankinn hefur íslenska tengingu. Smith taldi uppgefna ástæðu þó geta hafa verið fyrirslátt.

Vaxtakjör lánsins, sem upphaflega var að upphæð 150 milljónir evra, eru hagstæðari en á sama tíma í fyrra þegar bankinn sótti 200 milljónir evra á sambankalánamarkað, en þá var lánið stækkað vegna umframeftirspurnar úr 100 milljónum evra.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa vaxtakjörin batnað um 2,5 punkta yfir EURIBOR í 20 punkta úr 25 punktum. Ekki er vitað hvort að BNbank muni stækka nýja lánið en bankinn hefur möguleika á að stækka það í 225 milljónir evra, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins.