Bandaríska kántrísöngkonan Taylor Swift var tekjuhæsti tónlistarmaður ársins 2011. Þetta kemur fram á nýútgefnum lista Billboard-tímaritsins yfir tekjuhæstu tónlistarmenn ársins 2011. Söngkonan er 22 ára og voru árstekjur hennar tæplega 36 milljónir bandaríkjadala en það jafngildir í dag ríflega 4,5 milljörðum íslenskra króna.

Í öðru sæti listans voru írsku rokkstjörnurnar í U2 og bandaríski kántrí-söngvarinn Kenny Chesney í því þriðja. Breska nýstirnið Adele skipar ellefta sæti listans en platan hennar 21 var mest selda plata ársins.

Af eldri og þekktari nöfnum úr tónlistabransanum eru mörg kunnugleg andlit á listanum. Elton John skipar 13 sætið og Rod Stewart það 29. Þá er bítillinn Paul McCartney í 25 sæti þrátt fyrir að hafa aðeins komið fram á sex tónleikum í Bandaríkjunum á árinu 2011.

Bítlarnir eru sæti framar en McCartney en lög hljómsveitarinnar sívinsælu voru á árinu gerð aðgengileg á vefversluninni iTunes auk fleiri sambærilegra vefverslana. Bítlarnir seldu þar 4,7 milljón lög á síðasta ári og hefur lagið Here Comes The Sun notið þar mestra vinsælda

.

Taylor Swift
Taylor Swift