Skuldir hvíla þungt á ungu fólki. Stjórnvöld efldu lánveitingar til kaupa á fyrstu íbúð á höfuðborgarsvæðinu í júní 2008.

Sá hópur sem er í erfiðastri stöðu vegna mikilla skulda umfram verðmæti eigna keypti fasteign á höfuðborgarsvæðinu skömmu fyrir hrun bankanna, það er seinni part árs 2007 eða fyrri part ársins 2008. Í flestum tilfellum er það ungt fólk sem situr eftir með sárt ennið. Frá þessu greindu Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í byrjun síðustu viku. Var þetta meðal annars byggt á gögnum frá Seðlabanka Íslands að því er Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu, greindi Viðskiptablaðinu frá í samtali í gær.

Nýleg gögn um skuldastöðu heimilanna frá Seðlabankanum sýna að vandinn er einna mestur hjá þeim sem voru að kaupa sína fyrstu fasteign skömmu fyrir hrun ýmist með gengistryggðum eða verðtryggðum lánum. Vandinn er einnig mikill hjá þeim sem endurfjármögnuðu lán á árinu 2004 og síðar. Á árinu 2008 voru bankarnir þrír, Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir, nær allir hættir að lána til fasteignakaupa og annarra viðskipta vegna lausafjárskorts.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .