Í áramótablaði Viðskiptablaðsins er spjallað við nokkra forystumenn í mismunandi greinum atvinnulífsins þar sem þeir eru spurðir hvernig þeim fannst árið sem er að líða og hvaða væntingar þeir bera til ársins 2015. Kolbeini Árnasyni, framkvæmdastjóra SFS, segir árið hafa verið um margt gott.

Hvernig var árið 2014 heilt yfir?

Árið sem er að líða er um margt ákaflega gott og kemur þar helst til að sjaldséður stöðugleiki hefur ríkt í efnahagslífinu. Verðbólga er lág, kaupmáttur hefur aukist og bjartsýni gætir í auknum mæli meðal stjórnenda fyrirtækja. Þrátt fyrir þessi góðu merki hvílir skuggi gjaldeyrishafta enn yfir okkur og þar til að þeim verður aflétt er ólíklegt að efnahagslífið geti þróast með eðlilegum og jákvæðum hætti til lengri tíma.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi voru stofnuð á árinu. Ég er afskaplega ánægður með að hafa gefist kostur á að koma að þeirri stofnun.

Hverjar eru væntingar þínar á nýju ári?

Við skulum vona að vel takist til við að létta hér gjaldeyrishöftum. Þrátt fyrir að því fylgi einhver áhætta og gæti raskað stöðugleikanum tímabundið að stíga mikilvæg og ákveðin skref í afnámsferlinu þá er það nauðsynlegt fyrir framþróun íslensks atvinnulífs til langs tíma.

Hver eru mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar á næsta ári?

Við bindum vonir við að það takist að klára umræðu um endurskoðun fiskveiðistjórnunnarkerfisins og að koma megi á fyrirsjáanlegu kerfi veiðigjalda sem taki mið af afkomu sjávarútvegsins þannig að hann geti áfram vaxið og dafnað.