Greiningardeild Glitnis segir í Morgunkorni sínu að afkoma Icelandic Group á fjórða fjórðungi 2005 hafi verið langt undir væntingum þeirra og einnig langt undir áætlunum félagsins.

Tap félagsins nam 1.154 milljónum króna á tímabilinu (spá +87 m.kr.) en í spá var einungis reiknað með lítilsháttar hagnaði vegna endurskipulagningar hjá félaginu. Sölutekjur félagsins námu 22,4 milljörðum kr. (spá 25,4 milljarðar kr.) sem var nokkuð undir væntingum. EBITDA framlegð félagsins var neikvæð um 252 milljónir kr. (spá +794 m.kr.) sem reyndist langt undir væntingum Íslandsbanka.

Helstu ástæður fyrir slökum árangri á fjórðungnum voru nokkrar. Fyrst ber að nefna að rekstur Coldwater í Bretlandi gekk mjög illa og mun verr en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstur Icelandic France og Ocean To Ocean í Bandaríkjunum gekk einnig illa. Loks gekk rekstur Icelandic Asia verr en áætlanir höfðu gert ráð fyrir vegna hás hráefnisverðs. Til viðbótar við þessa liði gjaldfærði félagið talsvert mikið vegna endurskipulagningar. Þannig lét forstjóri og framkvæmdastjóri hjá félaginu af störfum á fjórðungnum auk þess sem mikil endurskipulagning átti sér stað í Þýskalandi og Bretlandi. Í heild nam kostnaður vegna endurskipulagningar 254 m.kr. á fjórðungnum.

Taka ber fram að Icelandic gaf út afkomuviðvörun í byrjun febrúar sem gaf til kynna að afkoman yrði undir áætlunum á tímabilinu. Nánar verður fjallað um uppgjörið í viðbrögðum Greiningar síðar í dag.