Streymiþjónustan Netflix birti  uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs eftir lokun markaða í Bandaríkjnum í gær. Uppgjörið var umfram væntingar og hlutabréf í fyrirtækinu hækkuðu um 9% við birtinguna. Hlutabréfin hækkuðu einnig mikið á síðasta ári, eða um 139,2%.

Fyrirtækið er nú með yfir 75 milljón áskrifendur um allan heim, en vöxtur í áskrifendum á fjórðungnum var umfram væntingar. Alls bættust 5,59 milljón áskrifendur, þar af 4,04 milljón utan Bandaríkjanna. Þess má geta að samkvæmt könnun sem framkvæmd var fyrir Viðskiptablaðið í október sl, þ.e. áður en opnað var fyrir þjónustu Netflix á Íslandi, voru áskrifendur Netflix hér á landi um 27.000, eða einn af hverjum fimm íslendingum.

Tekjur fyrirtækisins jukust um 22,8% og voru 1,82 milljarður dala, eða 237 milljarðar króna. Tekjur fyrirtækisins á fjórðungnum voru 60 milljónir dala, eða 7,8 milljarðar króna. Fyrirtækið hefur hingað til lagt áherslu á vöxt fyrirtækisins, en í uppgjörinu segir að það geri áfram ráð fyrir að skila auknum hagnaði frá árinu 2017.