*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 27. apríl 2019 12:40

Úrvalsvísitalan í hæstu hæðum

Gengi Úrvalsvísitölunnar hefur hækkað um 20% frá áramótum og náði sínu hæsta gildi í apríl.

Kristján Torfi Einarsson
Hvorki loðnubrestur né samdráttur í hagkerfinu virðist bíta á verð hlutabréfa í Kauphöll.
Haraldur Guðjónsson

Hlutabréfavísitala Kauphallar Íslands hefur ekki verið hærri frá hruni. Þrátt fyrir að helstu hagvísar séu á niðurleið og neikvæðar fréttir hafi umfram aðrar einkennt umræðuna hefur vísitalan hækkað um 20 prósent frá áramótum. Skýringarnar á þessu misræmi benda þó hvorki til þess að hlutabréfamarkaðurinn sé skýjaborg né að fjárfestar hafi misst tengsl við raunveruleikann.

Viðmælendur blaðsins eru á einu máli um að eðlilegar skýringar séu á bakvið verðþróunina þótt hún kunni við fyrstu sýn að skjóta skökku við. „Það má nefna þrjú atriði sem hafa haft mikil áhrif á markaðinn og að samanlögðu skýra þau að mestu verðþróunina frá áramótum,“ segir Sveinn Þórarinsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum.

„Fyrir það fyrsta hefur stemningin á markaðinum í vetur verið sérstök og einkennst af mikilli óvissu. Erfiðleikar Wow og kjarasamningar vofðu yfir í langan tíma og fréttir varla sagðar án þess að annað þessara mála eða bæði hafi verið til umfjöllunar. Nú eru kjarasamningar á lokametrunum og markaðurinn sér að það er líf eftir fall Wow og er þá komin meiri hreyfing á markaðinn.

Önnur mikilvæg ástæða er þróunin á markaði með skuldabréf á árinu. Þar hefur verið um töluverðar verðhækkanir að ræða, sér í lagi í verðtryggðum bréfum, sem hafa hækkað um 7-8% það sem af er ári. Þetta þýðir jafnframt að ávöxtunarkrafa og vextir hafa samhliða lækkað töluvert. Samkvæmt fræðunum þá horfa fjárfestar í auknum mæli til hlutabréfa þegar ávöxtunarkrafa fer lækkandi, að því gefnu að lægri vextir endurspegla ekki snöggan og mikinn samdrátt í efnahagslífinu.

Hagfræðideild Arion reiknar nú með að lítils háttar samdrætti á þessu ári. Hins vegar eru greinendur sammála um að horfur til lengri og meðallangs tíma séu gætar og því hefur verðhækkunin á skuldabréfamarkaði vafalaust stutt við hlutabréfin í Kauphöllinni,” segir Sveinn.

Stefán Broddi Guðjónsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, tekur undir þessar skýringar og segir hækkun eignaverðs vera hina hliðina á lægri ávöxtunarkröfu. „Lægri ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði vegur á móti lakari efnahagshorfum til skemmri tíma. Það sem af er þessu ári hefur ávöxtunarkrafa lengri ríkisbréfa lækkað um meira en 100 punkta. Stundum er sagt að hlutabréfamarkaðir séu framsýnir. Ávöxtun íslenskra hlutabréfa hefur verið slök síðustu ár, þó að hagvöxtur hafi verið mikill. Má því segja að dekkri efnahagshorfur hafi verið verðlagðar á hlutabréfamarkaðinum,” segir Stefán.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is