Hagvaxtarhorfur verða lakari og útflutningur minni en spáð var fyrir árið 2015 þar sem ekki verður af stækkun álversins í Straumsvík á næsta ári.

Fram kemur í Peningamálum Seðlabankans að reiknað sé með því að stóriðjutengd fjárfesting dragist heldur meira saman í ár en áætlað var í maí eða um tæp 8% samanborið við 5,3% í síðustu spá. Meiri breyting frá fyrri spá er fyrirséð á næsta ári vegna þess að fjárfesting tengd framleiðsluaukningu álversins í Straumsvík verður ekki eins mikil og áður hafði verið áætlað. Þó segir í Peningamálum að búist er við að stóriðjutengd fjárfesting muni aukast talsvert á næstu tveimur árum og fari úr um 2,5% í um 5% af landsframleiðslu árið 2015 þegar gert er ráð fyrir að áhrif fyrirhugaðra framkvæmda í Helguvík aukist verulega.

Enn sem fyrr er þó nokkur óvissa um framvindu þeirra framkvæmda, að því er segir í Peningamálum.