*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 13. september 2019 11:40

Útgjöld ríkissjóðs jukust um 7,5% í fyrra

Útgjöld hins opinbera jukust um 5% milli ára og þar af jukustu útgjöld almannatrygginga um 9,5%.

Ritstjórn
Gríðarlegur vöxtur bæði tekna og útgjalda ríkissjóðs síðustu ár á sér ekki fordæmi í hagsögu landsins.
Haraldur Guðjónsson

Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um tæpa 23 milljarða króna árið 2018, eða sem nemur 0,8% af vergri landsframleiðslu (VLF). Til samanburðar var afkoman jákvæð um 14,1 milljarð króna árið 2017. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands en þar er betri afkoma á síðasta ári m.a. rakin til lægri vaxta- og tilfærsluútgjalda en einnig til þess að árið 2017 var gjaldfærð tilfærsla til Brúar lífeyrissjóðs upp á 32 milljarða króna. 

Heildartekjur hins opinbera á verðlagi hvers árs námu 1.204 milljörðum króna á síðasta ári og jukustu um 66 milljarða frá 2017 sem jafngildir 5,7% aukningu. Þess má geta að tekjur hins opinbera voru 741 milljarðar króna árið 2012 og hafa því aukist um 463 milljarða á sex árum eða sem jafngildir 62% aukningu. 

Heildartekjur ríkissjóðs jukustu um tæp 5% milli ára 2017 og 2018 og voru 882 milljarðar króna. Tekjur sveitarfélaga jukust nokkuð meira eða um 8,9% og námu 363 milljörðum. Tekjur almannatryggingajukust mest eða um 11,9% og námu 251 milljörðum króna í fyrra. 

Skattar á tekjur og hagnað jukust um 5,7% en þeir eru stærsti tekjuliður hins opinbera og skilaði 42,5% af heildartekjum á síðasta ári. 

Útgjöld hins opinbera námu 1.180,6 milljörðum króna árið 2018 og jukust um 5% milli ára. Aukningin í útgjöldum ríkissjóðs nam 7,5%, útgjöld sveitarfélaga jukust um 2% og útgjöld almannatrygginga um 9,5% frá fyrra ári. Hafa ber í huga að á árinu 2017 var gjaldfærð fjármagnstilfærsla sveitarfélaga til Brúar lífeyrissjóðs upp á 32 milljarða króna. Að frádreginni þeirri fjármagnstilfærslu jukust heildarútgjöld sveitarfélaga um 11,8% á árinu 2018 samanborið við fyrra ár.