Impregilo SpA Ísland, útibú samnefnds risafyrirtækis á Ítalíu sem sá um byggingu Kárahnjúkavirkjunar, var lýst gjaldþrota með úrskurðum héraðsdóms Reykjaness sem var uppkveðinn 1. júlí síðastliðinn. Var Bragi Björnsson hdl. skipaður skiptastjóri. Í lögbirtingarblaðinu í dag er skorað á alla þá, sem telja til skulda eða annarra réttinda á hendur búinu eða eigna í umráðum þess, að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra innan tveggja mánaða.

Impregilo SpA Ísland hafði á byggingartíma Kárahnjúkavirkjunar átt í margvíslegum útistöðum við verkalýðshreyfinguna og íslenska ríkið m.a. vegna meintra ofgreiddra skatta. Með dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 25. febrúar 2010 var íslenska ríkið sýknað af kröfum Impregilo SpA um endurgreiðslu á sköttum sem greiddir höfðu verið af launum erlendra manna sem störfuðu í þágu Impregilo SpA við Kárahnjúkavirkjun á vegum tveggja portúgalskra starfsmannaleiga. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að það fé sem Impregilo SpA hefði skilað vegna staðgreiðslu af launum erlendu starfsmannanna væri ekki ofgreitt þar sem íslenska ríkið hefði átt réttmæta kröfu til fjárins. Réttur til endurgreiðslu væri á hendi gjaldandans sjálfs en ekki Impregilo SpA sem hefði haft milligöngu við að uppfylla skattskyldu sem hvíldi á öðrum en ekki verið í hlutverki gjaldanda.

Impregilo SpA krafðist jafnframt endurgreiðslu á tryggingagjaldi sem félaginu var gert að greiða vegna launa þessara starfsmanna. Féllst Hæstiréttur á að tryggingagjaldið hefði verið ofgreitt skv. lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, en lagði þó ekki efnisdóm á þann hluta málsins vegna vanreifunar af hálfu Impregilo SpA. Þessum hluta málsins var því vísað frá dómi.

Móðurfélagið Impregilo Group er risasamsteypa í verktakageiranum sem var stofnuð upp úr fjórum félögum 1995. Félögin sem að baki stofnun samsteypunnar stóðu voru Girola, Lodigiani, Impresit og Cogefar og er saga þeirra rakin allt aftur til 1906.  Stærstu hluthafar samsteypunnar í dag eru Free Float með 60,985% hlut, IGLI með 29,960%, Amundi S.A. með 3,728%, Ass. Generali með 3,323% og Norges bank með 2,004% hlut.

Impregilo Group er nú með um 15.000 starfsmenn víða um lönd. Velta samsteypunnar á árinu 2009 var um 2.706 milljónir evra og brúttóhagnaður af rekstri (Ebitda) nam 199 milljónum evra. Nettó hagnaður 2009 var 78 milljónir evra sem var 90 milljónum evra minni hagnaður en árið 2008.