*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 29. desember 2007 13:01

Útlitið bjart fyrir rekstarfélög

Ritstjórn

Innviðir Teymis [TEYMI] eru sterkir og fjarskiptahluti fyrirtækisins mun auka vægi sitt á næsta ári, segir Árni Pétur Jónsson, forstjóri fyrirtækisins í samtali við vb.is. „Við erum bjartsýn á næsta ár. Við erum rekstrarfélag en ekki fjárfestingafélag, og vonumst til að meiri stemmning fari að myndast fyrir slíkum félögum í ljósi atburða á markaði á undanförnum mánuðum. Teymi hefur verið að skila góðum uppgjörum og haft gott sjóðstreymi, þannig að peningaleg staða er góð sem er mikilvægt á þessum síðustu og verstu tímum.” Að sögn Árna mun vægi fjarskiptahluta félagsins aukast á næsta ári, en nú þegar skapar fjarskiptahlutinn um helming tekna en allt að því þrjá fjórðu hagnaðar. „Innri vöxtur verður meiri í fjarskiptunum heldur en hugbúnaðargeiranum.”

Láta að sér kveða á landsbyggðinni

Árni segir stærsta verkefni fyrirtækins á næsta ári meðal annars vera innleiðing 3G símkerfisins í samstarfi við hið nýstofnaða Nova: “Við náðum samkomulagi um samnýtingu 3G-dreifikerfisins, og á móti fær Nova að samnýta 2G-dreifikerfið okkar. Einnig unnum við ríkisútboðið í svokölluðu GSM-2 verkefni, en það snertir uppbyggingu GSM-kerfisins á fáfarnari stöðum. Það verkefni mun að sama skapi skipta okkur miklu máli. Við erum þar að auki með fyrirhugaða sókn á landsbyggðinni, en hingað til höfum við einblínt á höfuðborgarsvæðið og Akureyri. Það er stefnan að bjóða okkar þjónustu víðar á landinu sem raunverulegan valkost.”

Árni segir Teymi jafnframt líta til þess að styrkja þær einingar sem eru á hugbúnaðargeiranum: „Við höfum mjög sterka stöðu í gegnum fyrirtæki á borð við Skýrr í þjónustu við stærstu fjármálafyrirtækin. Einnig erum við að þjónusta stórar opinberar stofnanir og sveitarfélög, og að sama skapi bjóðum við stórverslunum upp á verslunarkerfi. Á næsta ári er markmiðið að styrkja okkur á þessum mörkuðum enn frekar.”

Hands Holding-sögunni að ljúka

Hands Holding (HH) hefur um nokkurt skeið verið Teymi þungur kross að bera, en Árni segir þeirri sögu meira og minna lokið. Stigið hafi verið stórt skref með því að gera upp HH með því að selja Opin kerfi: „Að sama skapi leystum við til okkar Landsteina-Streng og HugAx, sem eru tvær sterkar, íslenskar einingar. Við minnkuðum eignarhlut okkar í HH úr 50% í um það bil 12%. Teymi var í ábyrgð fyrir 7,5 milljörðum vegna HH, en nú hefur sú upphæð minnkað niður í 2,7 milljarða. Við höfum alltaf sagt á uppgjörsfundum að það yrði væntanlegt högg á rekstri Teymis þegar HH yrði gert upp. Fyrir uppgjör þriðja fjórðungs afgreiddum við það mál og gjaldfærðum rúman milljarð og ráðgerum að ekki muni koma til frekari áhrifa á rekstur okkar vegna þessa.”