Björn Leifsson, eigandi líkamsræktarkeðjunnar World Class, hefur ákveðið að hætta allri starfsemi í Danmörku.

Fyrir skömmu seldi hann fimm stöðvar út úr keðjunni Equinox í Danmörku og sagðist gera ráð fyrir að ljúka sölu þeirra staða sem eftir eru fyrir næstu mánaðamót. Fyrir lægi samningur þar um.

Þar með sér fyrir endann á útrás þeirri sem hófst í lok árs 2006 í samstarfi við Straum-Burðarás en þá keypti Björn Equinox sem var leiðandi líkamsræktarstöðvakeðja í Danmörku.

Aðspurður sagði Björn að þetta væri talsvert högg fyrir starfsemina en sagði að fyrirtækið þyldi það og í framtíðinni myndi hann einbeita sér að starfsemi sinni á Íslandi.

„Við höfum þetta af,“ sagði Björn en hann átti 25% í Equinox í upphaf. Síðastliðinn vetur var þremur stöðvum af 16 lokað og nú í ágúst voru stöðvar í nafni Equinox orðnar sjö talsins.