*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 11. apríl 2021 12:31

Útvistun ódýrari en pólitískt erfið

Framkvæmdastjóri segir grunnhlutverk Strætó að þjónusta og skipuleggja frekar en að reka vagnaflota.

Júlíus Þór Halldórsson
Jóhannes Rúnarsson hefur verið framkvæmdastjóri Strætó frá því í ársbyrjun 2015.
Aðsend mynd

Kostnaður Strætó bs. við eigin rekstur strætisvagna er talsvert hærri en greiðslur til verktaka fyrir að veita sömu þjónustu. Meðal skýringa eru samlegðaráhrif rútufyrirtækja og pólitískar hindranir við endurnýjun vagnaflotans, sem er kominn vel til ára sinna.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir akstur vagnanna sjálfra og rekstur þeirra ekki hluta af grunnhlutverki Strætó, heldur felist það í skipulagningu og þjónustu. Tæp 60% aksturs strætó eru þegar í höndum Kynnisferða og Hagvagna (það síðarnefnda er í eigu Hópbíla) en hlutfallið hefur aukist jafnt og þétt síðustu áratugi. Jóhannes segir það pólitíska ákvörðun í höndum yfirboðara síns hvort halda eigi áfram á þeirri vegferð, en tölurnar tali sínu máli.

Eigin akstur fimmtungi dýrari
Í skýrslu sem ráðgjafasvið KPMG vann fyrir Strætó síðasta sumar kemur fram að akstur verktaka kostar Strætó 12.881 krónu á klukkustund, eða 550 krónur á hvern ekinn kílómetra, samanborið við 15.540 og 632 króna kostnað við eigin akstur með núverandi vagnaflota. Klukkustundakostnaðurinn er því um 21% hærri við eigin akstur og kílómetrakostnaðurinn 15% hærri.

Aðspurður segir Jóhannes kostnaðarmuninn að mestu mega rekja til samlegðar í rekstri rútufyrirtækjanna. „Það er fyrst og fremst bara það að þessi fyrirtæki hafa ákveðna samlegð með ferðaþjónustuakstri. Þeir nýta saman verkstæði, þvottastöðvar og fleira, og ná þannig mun betri nýtingu út úr fastafjármununum en við gætum nokkurn tímann gert.“

Erfið pólitísk ákvörðun að útvista
Jóhannes segir niðurstöðu skýrslunnar í samræmi við það sem lengi hafi verið vitað hjá Strætó. „Þetta er klárlega hagkvæmara og við fengum KPMG í raun bara til að staðfesta þá útreikninga sem hafa svosem verið gerðir innanhúss hjá okkur í mörg ár.“

„Við viljum auðvitað bara að það sé farið vel með fé. Kjarnastarfsemi Strætó er ekki endilega að reka vagnaflota. Það er meira að þjónusta viðskiptavinina og skipuleggja leiðakerfið. Það er svona þessi norræna sviðsmynd sem við höfum bent á undanfarin ár.“

Ákvörðunarferlið í opinberum rekstri er hins vegar margþætt og tekur til fleiri þátta en rekstrarhagkvæmni.

„Þetta er pólitískt mál sem þarfnast mikillar umræðu og samráðs hjá þeim sveitarfélögum sem standa að Strætó. Það getur verið erfitt fyrir menn að taka þessa ákvörðun, að útvista akstri sem hefur verið hluti af menningu Strætó í gegnum tíðina, örugglega í 100 ár frá því að SVR var stofnað.“

Engin stefnumörkun liggi fyrir enn sem komið er um hvort stefna eigi að aukinni útvistun akstursins. „Ekki annað en að menn hafa óformlega rætt það að samhliða innleiðingu Borgarlínu verði þær leiðir sem hún tekur yfir af Strætó settar í verktöku.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.