*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 27. maí 2020 12:15

Væntingar landsmanna batna

Framtíðarhorfur íslensks atvinnulífs fara batnandi ef horft er til væntingavísitölu Gallup.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Væntingar landsmanna til efnahagsástands næstu sex mánaða hafa batnað samkvæmt nýjum tölum Gallup. Mat á núverandi ástandi lækka þó samkvæmt umfjöllun greiningardeildar Íslandsbanka.  

Væntingavísitala Gallup hækkaði um 17 stig milli mánaða og mælist nú í 61,5 stigum. Í aprílmánuði stóð vísitalan í 44,4 stigum en hún hafði ekki mælst lægri í meira en níu ár. 

Allar undirvísitölur hækkuðu á milli mánaða fyrir utan mat á núverandi ástandi. Í febrúar mældist undirvísitalan í 82,5 stigum samanborið við 16 stig núna í maí. Væntingar til næstu sex mánaða hækkaði um 33 stig milli mánaða. Landsmenn virðast því telja að faraldurinn sé á undanhaldi og að flest horfi til betri vegar á næstu misserum. 

Heildarvelta innlendra greiðslukorta hefur dregist saman um tæp 27% miðað við sama tíma í fyrra. Ferðatakmarkanir og samkomubann munu líklega hafa mikil áhrif á neyslu á næstu mánuðum en neysla er almennt mjög viðkvæm fyrir óvissu.  

Greiningardeildin býst því við 5,5% samdrætti í einkaneyslu á þessu ári eftir mikinn vöxt undanfarin ár en einkaneysla hefur vegið um helming af vergri landsframleiðslu síðustu ár.