Stjórnarandstöðuflokkar í Króatíu hafa farið fram á rannsókn á hlutabréfaviðskiptum framkvæmdarstjóra samheitalyfjafyrirtækisins Pliva, Zeljko Covic, en hann er sakaður um að misnota stöðu sína á meðan yfirtökuferli fyrirtækisins stóð yfir, segir í frétt Dow Jones.

Bandaríska samheitalyfjafyrirtækið Barr Pharmaceuticals hafði nýverið betur í baráttu við Actavis um yfirtöku á Pliva. Hæsta boð Barr hljóðaði upp á 820 kúnur á hlut, og hljóðar því yfirtakan upp á um 170 milljarða króna.

Covic mun hafa selt um tíu þúsund hluti í Pliva til Barr og mun hann hafa hagnast um 85 milljónir króna við söluna, segir í fréttinni.

Árið 2002 nýtti Covic rétt sinn til kaupa á hlutabréfum í fyrirtækinu á genginu 404 kúnur á hlut. Í september síðastliðnum, þegar barátta Barr og Actavis stóð yfir, keypti hann fleiri hluti á jafnvel enn lægra verði, segir í fréttinni.

Fjármálaeftirlit Króatíu, HANFA staðfesti í vikunni að Covic hafi keypt hlutaféð án samþykkis hluthafa Pliva og að brotið hafi verið tilkynnt. Ef Covic verður fundinn sekur gæti hann þurft að greiða allt að 200 þúsund kúna sekt (um 2,3 milljónir króna.)

Fulltrúi stjórnarandstöðu flokksins Croatian Party of Rights, Pero Kovacevic, segir að þó að Covic þurfi að greiða sektina muni hann engu að síður hafa hagnast gríðarlega. Kovacevic segir Covic hafa misnotað stöðu sína og eyðilagt Pliva til að hagnast sjálfur, segir í fréttinni.

Marin Jurjevic, lögfræðingur sósíalista demókrataflokksins, sem einnig er í stjórnarandstöðu, hefur farið fram á að stjórnvöld geri eigur Covic upptækar ef þær hafi verið fjármagnaðar með ólöglegum hætti.

Covic segir að hann hafi fengið rétt til hlutabréfakaupa árið 2002 og hafi því ekki þurft að leita samþykkis hluthafa aftur.