Bandaríska eignastýringafyrirtækið Vanguard er orðið áttundi stærsti hluthafi Íslandsbanka, ellefti stærsti hluthafi Arion banka og tólfti stærsti hluthafi Kviku banka eftir að íslenski hlutabréfamarkaðurinn var færður upp um flokk hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell.

Vísitölusjóðir Vanguard halda nú á yfir 12 milljarða króna hlut í bönkunum samkvæmt uppfærðum listum yfir stærstu hluthafa bankanna‏.

Íslenski markaðurinn var færður upp um vigt hjá FTSE Russell í ‏þremur skrefum en ‏það síðasta fór á mánudaginn síðasta. Fyrir hvert skref fer fram svokallað lokunaruppboð á lokamínútum síðasta viðskiptadagsins fyrir uppfærsluna. Því var tæplega 14 milljarða króna velta á aðalmarkaði Kauphallarinnar á föstudaginn í síðustu viku.

Sjóðir Vanguard eru komnir með 1,9% hlut, í Íslandsbanka sem er um 4,3 milljarðar króna að markaðsvirði og 3,1% hlut í Arion sem er um 6,1 milljarður að markaðsvirði. Miðað við breytingar á eignarhlut í bönkunum tveimur má ætla að Vanguard hafi keypt hlutabréf í bönkunum fyrir samtals um 3 milljarða króna á föstudaginn. ‎

Þá hafa bæst tveir sjóðir hjá Vanguard við lista yfir stærstu hluthafa Kviku banka. Sjóðirnir Vanguard Total International og Vanguard Emerging Markets eiga hvor um sig 1,03-1,04% hlut í Kviku. Samanlagður eignarhlutur sjóðanna er um 1,8 milljarðar króna að markaðsvirði.

Eignarhlutur vísitölusjóða Vanguard í skráðu bönkunum í Kauphöllinni

Banki Fjöldi hluta Í % Markaðsvirði
Arion banki 46.035.620 3,05 6,1 ma.kr.
Íslandsbanki 37.257.670 1,86% 4,3 ma.kr.
Kvika banki* 102.147.722 2,07% 1,8 ma.kr.
*Samanlagður eignarhlutur Vanguard Total International og Vanguard Emerging Markets í Kviku.

Fimmtán af 23 félögum á aðalmarkaði Kauphallarinnar voru tekin inn í FTSE Global All Cap vísitöluna vegna uppfærslu Íslands í flokk nýmarkaðsríkja hjá FTSE Russell.

Sjóðir Vanguard eru nú einnig komnir á lista yfir stærstu hlutahafa Eimskips, Festi, Haga, Origo, Reita, Símans, Sjóvá og VÍS.