*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Innlent 29. október 2018 15:51

Vantar 1,2 milljarða í flugvelli

Icelandair og Isavia segja þörf fyrir meira fjármagn í innanlandsflugvelli. Skortur á alþjóðlegum flugvöllum stærsta ógnin.

Ritstjórn
Heilmikið pláss er við Þórshafnarflugvöll á norðausturlandi en víða um land vantar fjármagn fyrir uppbyggingu innanlandsflugvalla segir Isavia. Icelandair segir skort á flughlöðum og flugstæðum á varaflugvöllum landsins helstu ógnina við flugsamgöngur.
Haraldur Guðjónsson

Í athugasemdum Icelandair og Isavia vegna samgönguáætlunar Alþingis fyrir árin 2019 til 2023 leggja báðir aðilar áherslu á uppbyggingu innviða flugsamgangna á landsbyggðinni. Meira rými fyrir flugvélar, viðhald og uppbyggingu vanti í kringum alþjóðlega flugvelli á landsbyggðinni sem nýttir eru sem varaflugvellir.

Til viðbótar sé uppsöfnuð viðhaldsþörf á innanlandsflugvöllum um 1,2 milljarðar króna að sögn ISAVIA. Rannsóknarnefnd flugslysa leggur á sama tíma til að flugvöllurinn í Höfn verði gerður að alþjóðaflugvelli eftir að flugvél lenti í vandræðum á leið til Egilsstaða. Vestfirðingar vilja einnig alþjóðaflugvöll.

30 vélar treysta á tvo varaflugvelli

Icelandair segir í umsögn sinni að vöxtur millilandaflugs til og frá Keflavíkurflugvelli hafi verið ævintýralegur sem kalli á trausta varaflugvelli sem nýtist ef flugvöllurinn lokist út af veðri eða öðrum forsendum.

Bendir félagið á að í dag séu einungis þrír vellir sem nýtist sem varaflugvellir, það er á Egilsstöðum, Akureyri og að takmörkuðu leyti Reykjavíkurflugvöllur. Sé útilokað að þær 30 flugvélar sem geti verið á leið til Keflavíkurflugvallar á hverjum tímapunkti geti nýtt þessa flugvelli til að lenda ef nauðsyn bæri vegna takmarkaðs rýmis.

Sérstaklega þar sem sömu veðuraðstæður geti vegna nálægðar leitt til þess að Reykjavíkurflugvöllur lokist á sama tíma og alþjóðaflugvöllurinn í Keflavík. „Ljóst er að við slíkar aðstæður getur veruleg hætta skapast,“ segir í umsögn Icelandair og segir félagið þetta stærstu ógn við flugöryggi til og frá landinu.

„Miðað við þau gögn sem lcelandair hefur undir höndum og fylgdi boði um umsögn er ekki að sjá að neinu fjármagni skulið varið til þessara mála á árunum 2019-2023. Að okkar mati er slíkt með öllu óforsvaranlegt.“

Vantar helming af fjármagninu

Í umsögn Isavia, sem sér um rekstur og viðhald allra flugvalla á landinu, segir að verulega vanti fjármagn til að sinna viðhaldi og framkvæmdum við innanlandsflugvelli hér á landi.

Segir stofnunin að fjárveitingar síðasta áratuginn til viðhalds og framkvæmda á flugvallarmannvirkjum og flugleiðsögubúnaði innanlandsflugvalla hafi einungis numið rétt rúmlega helming þess sem hefði verið nauðsynlegt árlega.

„Uppsöfnuð þörf nemur um 1.200 milljónum króna árlega ef koma á þessum grundvallarinnviðum í viðunandi horf á næstu fimm árum,“ segir í umsögn stofnunarinnar.

Viðhaldsféð fyrir tímabilið sem nú sé í hönd í samgönguáætlun nægi því ekki áfram og viðhald og lendingaraðstaða verði áfram í lágmarki. Því megi búast við skertri þjónustu og er Bíldudalsflugvöllur þar sérstaklega nefndur.

Vilja alþjóðaflugvelli á Suðausturlandi og Vestfjörðum

Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir í umsögn vegna atviks þegar flugmaður á heimasmíðaðri vél á leið frá Færeyjum til Íslands að breyta þyrfti flugvellinum í Höfn í alþjóðaflugvöll. Bendir nefndin á að flugmaðurinn hafi fengið villandi upplýsingar um flugskilyrði og aðstæður, m.a. vegna þess að upplýsingarnar á vef íslensku veðurstofunnar eru ekki á ensku.

Niðurstaða nefndarinnar er sú að flugvöllurinn á Egilsstöðum hafi ekki verið heppilegur fyrir lendingar fyrir vélina á þessum degi, vegna veðurfarsskilyrða, en völlurinn á Höfn hefði hins vegar hentað betur. Sá flugvöllur er hins vegar ekki skilgreindur sem alþjóðaflugvöllur.

Stjórnvöld hafa einnig fengið á sig áskorun um uppbyggingu alþjóðaflugvallar á hinum enda landsins, Vestfjörðum. Ályktaði Fjórðungssamband Vestfjarða t.a.m. um málið á fundi sínum í október 2014 og benti á mikilvægi málsins fyrir frekari atvinnuuppbyggingu í landshlutanum. „Alþjóðlegur flugvöllur mun einnig jafna samkeppnisstöðu fjórðungsins við aðra landshluta sem og búsetuskilyrði á milli þeirra,“ segir í ályktun sambandsins.