Guido Westerwelle tilkynnti fyrir stundu að hann hyggist hætta sem formaður Frjálsra demókrata í Þýskalandi (FDP).  Þetta kemur fram á vef Der Spiegel.

Westerwelle kom til baka til Berlínar seinnihluta dags úr ferð um Asíu. Sagði hann við blaðamenn að hann myndi ekki óska eftir endurnýjuðu umboði sem flokksformaður á landsþingi flokksins sem haldið verður í Rostock í maí en hann hefur verið formaður flokksins frá 2001.

Frjálsir demókratar hafa samkvæmt skoðunarkönnunum tapað tveimur þriðju af 15% fylgi sínu frá þingkosningum fyrir hálfu öðru ári. Kannanir hafa ítrekað sýnt flokkinn fá undir 5% fylgi sem er skilyrði þess að ná sæti á þýska þjóðþinginu, Bundestag.

Westerwelle er utanríkisráðherra og varakanslara í stjórn Ankelu Merkel.  Sagði hann við komuna til Berlín í dag að hann myndi einbeita sér að störfum sínum sem utanríkisráðherra eftir að hann lætur af flokksformennsku.