Netverslunarrisinn Amazon hefur fengið einkaleyfi á því sem kalla mætti á vondri íslensku spádómssendingu á varningi (e. anticipatory shipping). Í því felst að vörum verður pakkað niður og þær jafnvel sendar af stað áður en viðskiptavinur hefur pantað þær.

Þetta á að stytta afhendingartíma og draga úr líkum á því að viðskiptavinir fari í hefðbundnar verslanir.

Þegar ákvörðun er tekin um hvaða vörur eigi að afgreiða með þessum hætti mun Amazon taka með í reikninginn hvaða vörur viðskiptavinurinn hefur áður pantað, hvað hann hefur skoðað á vefsíðu Amazon og jafnvel hve lengi músarbendill hans hangir yfir ákveðinni vöru.

Í einkaleyfisumsókninni er ekki að finna mat á því hvað þessi aðferð gæti stytt afhendingartíma mikið, en fyrirtækið hefur lagt áherslu á það undanfarið að stytta þennan tíma.